Vanvirða og ranglæti

"Að skipta íslendingum upp í hópa og segja að sumir þeirra séu "öryrkjar" er eins konar aðskilnaðarstefna. Það er verið að gera upp á milli fólks, flokka það á grundvelli sjúkdóma og gefa í skyn að þeir sem teljast öryrkjar séu einskins nýttir þjóðfélagsþegnar og byrði á samfélaginu. Við eigum að leggja þessa aðskilnaðarstefnu niður, hætta þessari flokkun og þurrka þetta orð út.

Þessi tímabæru orð skrifaði Styrmir Gunnarsson í Morgunblaðið 21. nóv. 2010 í grein um öryrkja og aðskilnaðarstefnu.

Eyrún Ingadóttir sagnfræðingur sem er í framboði til stjórnar VR skrifaði ótrúlega grein í Morgunblaðið 17. mars sl. uppfulla af vanvirðinu, ranglæti og fordómum gagnvart mér og öðrum öryrkjum undir nafninu. " Er VR baráttufélag öryrkja". Þarna er hún að svara grein minni frá 7.mars sl. Hún er þeirrar skoðunar að veikir, sem voru félagsmenn VR áður en þeir fóru á örorku, séu í félaginu til að geta nýtt sér t.d. félagsleg réttindi, s.s. sumarhús (höfum ekki efni á að nota þá) varasjóð,(skertur kr. á móti kr. af TR ).

Eyrún er einnig þeirrar skoðunar að öryrkjar eigi ekki að vera í framvarðasveit VR enda er það fyrst og fremst félag fólks á vinnumarkaði. Hvað með alla þá veiku sem eru í hlutavinnu eða í fullri vinnu á lágmarkslaunum og borga í VR?

Þá telur Eyrún öryrkja sama og einyrkja og ruglar þarna sama orðum sem eru bæði með "yrkja" í endingu, eins og núverandi formaður Kristinn Örn, og varaformaðurinn Ásta Rut og fl. gera. En einyrki er sá sem starfar einn og hefur ekki menn í vinnu. Orðið " ÖRYRKI" nær yfir fjölda einstaklinga, en aðallega um veikt og slasaða fólk bæði með vinnu og án vinnu.

Ég er öryrki og er að sækjast eftir því í löglegum kosningum að verða kosinn til stjórnar VR. Ég mun berjast fyrir láglaunaþega og atvinnulausa félagsmenn í VR. Atvinnuleysið kemur harðast niður á konum og ef þær falla út af þeim bótum bíður þeirra félagsbætur,en verið í áfram VR gegn greiðslu félagsgjalds.

Stjórnarstarf í VR er er hlutastarf þ.e.a.s. ekki einkastarf Eyrúnar og þeirra heilbrigðu og  fullfrísku sem eru henni sammála . Eyrún er sjálf í hlutastörfum þ.e.a.s. 50% hjá félagsdeild Lögmannafélags Íslands og framkvæmdastjóri Lögfræðingafélagi Íslands í 25% starfi. Enn eitt hlutastarfið í lagi fyrir hana, en ekki eitt einasta hlutastarf í lagi fyrir mig og þá alls ekki í stjórn VR, ef hún fær að ráða.

Þá segir Eyrún í grein sinni að veikir og slasaðir sé ekki á vinnumarkaði og á af þeirri ástæðu ekki að vera í forystu VR. Síðan kemur ótrúleg yfirlýsing hennar um að annað gildi um atvinnulausa og fólk með tímabundna örorku enda stefna þeir aftur á vinnumarkaðinn.

Hvað er að hjá þér Eyrún? Ert þú með læknispróf og sérfræðingur um hverjir það eru sem eru á tímabundinni örorku og hefur þú þau völd að úrskurða fólk óvinnufært með öllu og þá banna því að fara á vinnumarkað?

Ef þú ert í vafa með hverja þú vilt kjósa þá er þetta fólkið sem ég vil helst vinna með segir Benóný Valur Jakobsson frambjóðandi til stjórnar VR á heimasíðu sinni.Þ.e.a.s. Kristinn Örn Jóhannesson, Ásta Rut Jónasdóttir, Bjarni þór Sigurðsson, Gunnar Heiðberg Gestson, Pálmey Helga Gísladóttir, Kristjana Þorbjörg Jónsdóttir og Eyrún Ingadóttir. Er þetta fólk allt sammála Eyrúnu um öryrkjafordóma hennar? Álit sem er á ábyrgð Kristins formanns og Ástu varformanns á lagabreytingu á kostnað öryrkja hjá VR liggur fyrir.

80% öryrkja aðspurðir vilja vinna, en möguleikarnir eru takmarkaðir og menn hræðast að tapa réttindum hjá skerðingastofnun ríkisins TR og lenda á fordómafullu eineltisfólki. Uppbygging bótakerfisins og aðstæður á vinnumarkaði koma í veg fyrir atvinnuþátttöku stórs hluta öryrkja og að breytingum á þessu vill ég vinna innan VR. Ég mun vinna að öllum góðum málum innan VR ef ég verð kosinn í stjórn sama hvaðan eða frá hverjum þau koma.

Eyrún sem kona er kominn í stjórn eða sem varamaður í stjórninni sama hvernig kosningarnar fara vegna kynjakvótans og verður að vinna með mer ef ég verð einnig kosinn. Getur hún það og það fólk sem hún er í samfloti með?

Geðhjálp sendi frá sér yfirlýsingu í Mbl. vegna örorkulagabreytingarnar hjá VR og lýsti hneykslan sinni á henni. " Þetta er gróf mismunun gagnvart fötluðum og sjúkum félagsmönnum verklýðsfélagsins og verður ekki liðin" segir í henni. Geðhjálp hvatti einnig alla réttsýna félagsmenn VR til að koma í veg fyrir að öryrkjum yrði sýnt slíkt virðingarleysi og óréttlæti.

Endum á orðum Styrmis Gunnarssonar úr greininni 21. nóv. sl. " Sá sem er fullfrískur í dag getur verið kominn í hjólastól á morgun. Það er því miður veruleikinn í lífi okkar. Þetta samfélag á ekki að vera spurning um okkur og þá. Grundvöllur þess á ekki að vera sá að einhverjir hópar í samfélaginu hafi tilhneigingu til að líta þá hornauga sem hafa orðið fyrir þeirri þungu raun að verða alvarlega veikir."

Þá segir Styrmir um jafnrétti. "Það er mikið talað um jafnrétti. Það snýst ekki bara um jafnrétti kynja heldur líka um jafnrétti milli hinna frísku og þeirra sem eru sjúkir.

Við mundum búa í betra samfélagi á eftir."


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband