18.3.2011 | 14:47
Óvirðing og óréttlæti
"Þeir félagsmenn sem hætta störfum á vinnumarkaði vegna örorku geta verið áfram félagsmenn gegn greiðslu félagsgjalds en njóta ekki kjörgengis til stjórnar í félaginu." Þessi ótrúlega lagabreyting á 3.gr. Félagsaðildar á lögum VR var lögð fram á framhaldsaðalfundi VR þann 11. janúar sl. Skýringar formanns og varaformannsins VR voru þær að þau ásamt meirihluta stjórnarinnar og trúnaðarráðs hefðu ákveðið þessa lagbreytingu. Ástæðan væri óánægja þeirra við framboði öryrkja til stjórnar og Þá væru öryrkjar í sama flokki og einyrkjar á vinnumarkaði.
Í lögum VR er einyrki sá sem starfar einn og hefur ekki menn í vinnu.
Að telja öryrkja með einyrkjum er fáránlegt og samkvæmt því væru atvinnulausir einnig einyrkjar, er það ekki ? Var plottið e.t.v. bara það að setja eins lög á atvinnulausa næst?
Hvers vegna átti bara að banna öryrkjum eftir greiðslu félagsgjalda að bjóða sig fram til stjórnar, en leyfa þeim að bjóða sig fram til formanns? Hvað er að hjá fullfrísku vinnandi fólki hjá VR sem komu að þessari
eineltislagabreytingu? Lifir það í ótta um yfirtöku þeirra um 170 öryrkja sem eru skráðir í VR? Hvaða þörf hefur þetta fólk til að ráðast á þennan ógeðfelda hátt á veika og slasaða VR félaga? Sýnum öllum virðingu og réttlæti og þó að lagabreytingin hafi verið dregin til baka, þá ber ykkur sem að þessari lagabreytingu komuð að biðjast afsökunar á henni, en það hefur engin gert enn þá.
Ég er eini öryrkinn sem hefur boðið sig fram til stjórnar VR og e.t.v. er þessi lagabreyting gerð til þess að stoppa mig? Virkar ekki, því ég er í framboði. Óttast þau um friðinn og samstöðuna í stjórn VR ? Ég vona heitt og innilega að þeir VR félagar sem þola ekki svona óréttlæti skoði fyrir hvað ég er að berjast og kjósi mig ef ykkur líkar það.
Ég fór í tvær stóraðgerðir á hryggnum vegna umferðaslysins 1993, þar sem háls og mjóbak var spengt með járnplötum, skrúfum og járnliðamótum og einnig notaður beinmassi frá mjöðm til festingar. Síðan tók við tveggja ára endurhæfing en hún varð að engu við umferðaslysið 1999. Við það varð að skera aftur í mjóbakshryggvöðvann og taka járnliðamótin. Þetta var gert 2003 og síðan þá hef ég verið í endurhæfingu og býð mig nú fram til stjórn VR.
Að missa vinnu og heilsuna er gríðarlegt áfall, en vonin um að geta náð, þó það væri ekki nema smá vinnufærni þá er það alls endurhæfingarerfiðisins virði. Að vera stjórnarmaður í VR er bara hlutavinna og kjörtímabilið er tvö ár og ef eitthvað kemur upp á þá eru 3 varamenn til staðar. Í þessu ljósi eru öryrkjalagabreytingar VR stór furðulegar ef skoðaður er stuðningur VR við starfsendurhæfingarsjóðinn Virk, sem er hjá ASÍ Sætúni 1. Starfsendurhæfing hjá Virk er fyrir öryrkja til allra starfa, nema til stjórnarstarfs hjá VR. Hvar er virðingin og réttlætið?
Afar og ömmur eru með skerðingum lífeyrisréttinda skammtaðir um kr. 65.000.- í vasapeninga á elliheimilum. Hundruð þúsunda af lífeyrissjóðsgreiðslum þeirra teknar og hvar er veraklíðshreyfingin? Lífeyristekjur mínar frá lífeyrissjóði verslunarmanna er notaðar til skerðingar á öllum bótum mínum frá TR, þegar skatturinn er tekinn inn í dæmið.
Eftirfarandi skerðingum á mánuði hef ég orðið fyrir á bótum mínum. TR er um kr.-27.800.- Lífeyrissjó.-verslunarmanna er um kr.-12.500.- Barnabætur frá ríkinu bótatengdar er um kr.-7.500.- Húsleigubætur eru um kr.-17.000.- eða samtals um mínus kr.- 64.800.- á mánuði.
Skattur ríkisins af bótum mínum frá TR og Live er um kr. 570.000.- á ári en útborgað frá TR er um kr. 520.000.- eða um kr. 50.000.- minna frá TR ,en skatturinn er. Því er ég sem öryrki ekki á framfærslu ríkisins, heldur eingöngu frá Lífeyrissjóði verslunarmanna. Hugsið um þetta, því þetta sýnir ótrúlegar skerðingar í kerfinu frá lífeyrissjóðnum til ríkisins, ríkinu í hag.
En hvað um hálaunaliðið og lífeyrinn þeirra? Engar skerðingar og aðallinn fær að eiga sinn sparnað og fjármagnstekjur óskertar.Um milljón á mánuði og má vera með hundruð milljónir í banka án skerðingar á sama tíma og alþýðan, þ.e.a.s. láglaunaþegar og bótaþegar þessa lands eru skertir til fátæktar og til upptöku á þeirra lífeyrir með krónu á móti krónu. Þetta er þeirra réttlæti og hvar er virðing verklýðshreyfingarinnar ?
Hún er að undirbúa launasamninga upp á um 7% á þrem árum sem skilar lálaunþegunum um kr. 14.000.-, en hálaunaaðlinum um kr. 140.000.- eða um 126.000.- krónur hærri laun. Þetta er þeirra prósenturéttlæti og virðingin er sú að Hæstaréttadómarar fá kr.101.000.- í eingreiðsluhækkun, vegna álags, en bótaþegar eiga að standa áfram í biðröðum eftir mat.
Ný neysluviðmið komu fram nýlega og þar þarf einstaklingur um kr. 290.000.- á mánuði til framfærslu eftir skatt. Því er það þjóðráð að hækka bara öll laun og bætur um kr. 101.000.- og þá verða lágmarkslaun um kr. 290.000.- og höfum þau skattlaus og þá eru nýju neysluviðmiðin komin. Tvöföld hækkun á mat og öðrum nauðsynjum er komin fram og það er einstaklingum og barnafjölskyldum þung byrði ásamt húsnæðislánunum.
Stöndum saman fyrir Virðingu og réttlæti fyrir alla.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.