13.3.2014 | 10:36
Lekandi persónuupplýsingar
Lekandi persónuupplýsingar.
Breytingu á lögum um almannatryggingar, lögum um félagslega aðstoð og lögum um málefni aldraðra tóku gildi 1. febrúar 2014. Ein af átæðum breytinganna á lögunum var að koma í veg fyrir svik og finna bótasvikara hjá Tryggingastofnun ríkisins og því varð að gefa Tryggingastofnun ríkisins fullan aðgang að sjúkraskrám bótaþega hjá TR.
Hver eru bótasvikin og hvað á að gera með lögunum til að koma í veg fyrir þau? Á árunum 2007-13 eru flest svikin sem tengjast heimilisuppbót. Heimilisuppbótin er um 32.000 krónur á mánuði og hún fellur niður ef bótaþeginn býr ekki einn. Hún fellur einnig niður er börn bótaþegans ná 18 ára aldri og óháð tekjum þeirra, sem er furðulegt.
Þessi svik koma því ekkert við sjúkraskrám eða upplýsingum úr þeim, heldur varðar rangar upplýsingar um tekjur og eða hvort fólk býr eitt. Það er um veikt fólk og eldriborgara að ræða sem ekki vita um lög og reglur TR og því ekki um svik að ræða.
Á sömu árum eru næstmestu svikin vegna meðlaga, síðan eru það búsettir erlendis og þá mæðra- og feðralaun. Í heild eru þetta rúmlega 2 milljarðar króna á fimm árum. Árið 2012 eru þessi svik um 120 milljónir króna og því langt frá þeim 3-4 milljörðum króna sem talað var um að svikin væru á hverju ári. Þá er óupplýst hvað mikið skilar sér til baka til TR árinu síðar með innheimtuaðgerðum.
Ekkert af því sem her á undan er talið upp sem svik hjá Tryggingastofnun ríkisins kemur sjúkraskrám bótaþega hjá TR nokkuð við. Hvers vegna þarf því Tryggingastofnun ríkisins óheftan aðgang að sjúkraskrám skjólstæðinga ? Fyrir hvern er þessi ólöglegi aðgangur TR að öllum sjúkraskráupplýsingum um allt sem í sjúkraskrám skjólstæðinga stendur og hvernig á að nota þær ?
Stjórnarskráin sem bannar mismunun, friðhelgi einkalífsins, persónuvernd, mannréttindasáttmáli Evrópu og Sameiniðuþjóðanna allt horfið með lögum frá Alþing. Samþykkt með atkvæðum allra Alþingismanna um að allar sjúkraskrá skjólstæðinga Tryggingastofnunar ríkisins verði á borðum heilbrigðisstarfsmanna TR. Hvaða heilbrigðistarfmenn fá fullan aðgang ? Eru það allir starfsmenn TR eða eru það bara læknar sem eru að vinna fyrir tryggingafélög og tryggingastofnun ríkisins á sama tíma ?
Það að ná svikurum hjá TR með sjúkraskrám stenst ekki. Þetta er eins og að koma í veg fyrir skattsvik með því að fá fullan aðgang að sjúkraskrám allra skattgreiðenda. Komum við þá ekki í veg fyrir öll svik á Íslandi með fullum aðgangi að öllum sjúkraskrám allra landsmanna ? Er friðhelgi einkalífs um sjúkraskrár fyrir alla nema skjólstæðingar TR, sem eru veikt og slasað fólk, eldriborgarar, langveik börn og einstæðir foreldrar.
Á borðum Tryggingastofnunarinnar verða skrár um t.d. HIV, kynsjúkdóma, krappamein í legi, brjósti og lýtaaðgerðir og fl. og fl. Allt er þeim falt og það bara ef þeir telja sig nauðsynlega þurfa á þeim að halda "vegna ákvörðunar um greiðslu bóta og vegna eftirlitshlutverks hennar," eins og segir orðrétt í 42. gr. laganna. Vegna eftirlitshlutverks TR eru allir skjólstæðingar þeirra sviptir öllum mannréttindum.
Í 39. gr. laganna er maka umsækjanda eða greiðsluþega einnig skylt að taka þátt í meðferð málsins, m.a. með því að koma til viðtals og veita Tryggingastofnun þær upplýsingar sem nauðsynlegar eru svo unnt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæðir og greiðslu bóta og annarra greiðslna samkvæmt lögunum.
Makinn verður tekinn á teppið hjá TR og honum skylt að afhenda allar upplýsingar um t.d. sjúkraskrár. Makanum og bótaþeganum er skylt að afhenda upplýsingar um allt þeirra líf, allt. Upplýsingaskylda fyrir TR er einnig hjá Skattyfirvöldum, Vinnumálastofnun, Þjóðskrá Íslands, Innheimtustofnun sveitafélaga, Fangelsismálastofnun, Útlendingastofnun, ríkislögreglustjóra, Samgöngustofu, lífeyrissjóðum, sjúkrastofnanir, dvalar- og hjúkrunarheimili, LÍN og mennta.- og háskólum. Stóri bróðir er kominn og fær allt um okkur.
Lekan úr Innanríkisráðuneytinu á persónuupplýsingum hælisleitanda var tekið fyrir á Alþingi og í fjölmiðlum. Alþingi var rétt áður búin að samþykkja einróma afnám persónuverndar á tugþúsundum skjólstæðinga TR og það án athugasemda, nema hvað Píratar báðust afsökunar eftirá. Mismunun er bönnuð og allir eiga að vera jafnir fyrir lögum er það ekki þingmenn ?
En hvað með upplýsingaskyldu TR ? Er ekki sjálfsagt að skjólstæðingar þeirra fái að sjá allt sem TR er með á þeirra borðum. Í sjúkraskrám eru upplýsingar um fólk sem það ekki veit um og þær geta verið rangar og því ber þeim að fá aðgang að þeim til að geta varið sig gegn TR.
Öll svik ber að koma í veg fyrir með öllum löglegum ráðum. Berum fulla virðingu fyrir öllum og ef það er lausnin að uppræta svik með aðgangi að sjúkraskrám, þá gildi það um alla og öll svik. Ef ekki þá á bara að ráðast á garðinn þar sem hann er lægstur hjá skjólstæðingum Tryggingastofnunarríkisins og þá er Persónuvernd bara fyrir útvalda.
Öryrki og formaður BÓTar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.